Að gera húsnæði kanínuvænt
Að gera heimilið kanínuvænt
Til þess að vernda bæði kanínuna inni á heimilinu sem og heimilið fyrir kanínunni er nauðsynlegt að vera vakandi fyrir nokkrum hlutum. Kanínur eru mikið fyrir að bæði tyggja og naga en það er óþarfi að leyfa þeim að eyðileggja hluti innan heimilisins.
- Ein lausn er að eiga nóg af leikföngum fyrir kanínuna en það getur minnkað líkurnar á því að hún nagi á einhverju sem hún ætti ekki að naga á. Þetta er einfaldlega vegna þess að þegar kanínan hefur eitthvað fyrir stafni þá hneigist hún síður að eyðileggingu. Eftirlit er að sama skapi mikilvægt. Ekki aðeins mun kanínunni falla athyglin vel heldur kemur eftirlitið líka í veg fyrir að húsinu verði rústað!
- Vírar eru einna verstir. Beittar tennur kanína sneiða auðveldlega í gegnum víra. Þannig geta þær á fljótvirkan hátt eyðilagt fyrir þér uppáhalds lampann eða það sem verra er, þær geta fengið raflost og drepist. Gott er að setja hlífar úr hörðu plasti utan um snúrurnar en jafnvel betra er að koma vírum þannig fyrir að kanínan komist ekki í þá.
- Eru einhverjir staðir í nærumhverfi kanínunnar sem þú vilt alls ekki að hún komist í? Sumar kanínur geta hoppað mjög hátt og forvitni þeirra reynist þeim hjálpleg við að komast upp á hillur, stóla og borð.
- Kanínur eru líka snillingar í að troða sér inn í þröng rými eins og bak við bókahillur eða undir rúm svo þú getur þurft að loka slík svæði af með einhverjum hætti. Það eru nokkur ráð með það. Öryggishlið sem ætluð eru börnum eða hvolpa grindur geta virkað vel en helst þurfa slíkar aflokanir að vera úr málmi, annars mun kanínan naga sig í gegn á skömmum tíma.
- Það er í eðli kanína að grafa og það munu þær gera hvar sem tækifæri gefst, ekki síst í teppum og gólfmottum. Kanína mun toga í og róta upp lausa enda og trosnuða kanta þar til teppið eyðileggst alveg. Það er ágætt ráð að leggja flísar eða bastmottur yfir þá fleti sem hugnast kanínum til graftar. Þá er einnig hægt að raða húsgögnum þannig að þau nái yfir þessa fleti.
- Heimilisplöntur geta verið kanínum hættulegar. Margar þeirra eru þeim eitraðar svo best er að halda þeim frá kanínum. Jólastjörnur, kristþyrnir, tómatlauf og túlípanar eru meðal þeirra plantna sem eru kanínum eitraðar.