Félögin Dýrahjálp Íslands og Villikanínur hafa farið af stað með stórt verkefni þar sem stefnt er að því að ná inn þeim kanínum sem halda til í Elliðaárdalnum. Til að byrja með var tekinn inn smá hópur, 38 kanínur, til að meta stöðu og heilbrigði stofnsins og sjá hvort raunhæft verður að ná inn öllum þeim kanínum sem halda til á þessu svæði. Talið er að það séu í kringum 150-250 kanínur sem þyrfti þá að koma í skjól.
Kanínurnar dvelja í svokölluðu kanínukoti sem félögin hafa sett upp í samvinnu við Dýraþjónustu Reykjavíkur. Kanínurnar munu vera í kotinu þar til að þær fara á fósturheimili eða framtíðarheimili en félögin óska eftir aðstoð almennings varðandi ýmis aðföng fyrir þær á meðan þær dvelja þar. Mikilvægt er að kanínur fái örvun og afþreyingu á meðan þær eru í kotinu og óskum við því eftir þátttöku dýravina í verkefninu.
Kanínurnar voru metnar af dýralæknum og fá þá læknisaðstoð sem þær þurfa eftir að þær eru teknar inn. Verður reynt að finna þeim öllum heimili eftir að þær hafa lokið sóttkví, ormheinsun og geldingu.
Ástæður fyrir þessu brýna og löngu tímabæra verkefni eru margar en í okkar huga er það velferð dýranna sem gerir þetta verkefni svo aðkallandi.
Villikanínur eiga mjög erfitt líf úti í íslenskri náttúru, sér í lagi í Elliðaárdalnum, þó svo þeim sé gefið af almenningi.
Hætturnar eru víða og margar; þær slást mikið sín á milli til að ná sér í yfirráðasvæði (fá svo sár og sýkingar), gæsirnar bíta þær yfir mat, á vorin og sumrin drepur svo hrafninn og mávurinn ungana fyrir æti, kettir og hundar ráðast á þær og drepa jafnvel ásamt því að þær verða oft fyrir hjólum og bílum svo eitthvað sé nefnt.
Lífaldur kanína sem fæðast og lifa á þessu svæði er talin vera í kringum tvö ár en vert er að nefna að ekki er óeðlilegt fyrir gælukanínur að verða allt að 10-12 ára.
Gælukanínur, sem er sleppt á svæðinu, eiga ennþá erfiðara uppdráttar og enda oft lífið með hræðilegum hætti fljótlega eftir að hafa verið sleppt. Þær þekkja ekki svæðið og hafa í ekkert skjól að leita.
Til þess að þetta þarfa verkefni gangi sem best þá þurfum við á aðstoð að halda bæði í formi sjálfboðaliða og aðfanga. Búist er við því þetta verði nokkuð umfangsmikið langtímaverkefni innann félaganna tveggja.
Félögin taka einnig við beinum styrkjum fyrir þetta verkefni og má leggja inn á reikninga:
Villikanínur: 133-26-45 kt:590520-1010
Dýrahjálp Íslands: 513-26-4311 kt:620508-1010
Það má setja "kanínur" í skýringu
Gæludýr.is koma að verkefninu með þrennum hætti
- Með styrk úr styrktarsjóði Gæludýr.is sem nýtist vel til fóðurkaupa
- Með því að vekja athygli á verkefninu á miðlum Gæludýr.is
- Með því að hýsa óskalista fyrir Villikanínur, þar geta viðskiptavinir Gæludýr.is keypt það sem Villikanínur helst vantar til að sinna verkefninu sem best og kemur Gæludýr.is vörunum til þeirra.
Hér fyrir neðan má sjá óskalista Villikanína en við bjóðum viðskiptavinum okkar að setja vörur í körfu með sinni venjulegu pöntun og greiða og við sendum svo pakkann til Villikanína (þann hluta sem er sérmerktur þeim).