Beint í efni
Mínar síður

21. september 2023

Kettlingar

Það eru spennandi tímar framundan þegar nýr kettlingur bætist við fjölskylduna og það er mikið sem þarf að læra varðandi það hvers má vænta af kettlingnum og hvernig hægt er að auðvelda honum að aðlagast heimilinu sem fyrst. Hér eru nokkur einföld ráð:

  • Gættu þess að vera með ferðabúr fyrir kettlinginn áður en hann er sóttur, svo þú getir flutt hann heim á öruggann hátt.
  • Kettlingurinn þarf að eiga bæli einhvers staðar á hlýjum og friðsælum stað innanhúss, fjarri dragsúg. Til að halda hita á kettlingnum getur verið ágætt að nota hitapúða sem ætlaður er gæludýrum.
  • Gott er að leyfa kettlingum að hafa aðgang að herbergi eða svæði innan heimilisins sem hann getur notað til þess að aðlaga sig að hinu nýja umhverfi. Það skiptir miklu máli að kettlingurinn finni til öryggis á þessu svæði.
  • Það getur verið gagnlegt að nota róandi ferómón, t.d. Feliway sprey og úða til að draga úr kvíða hjá kettlingnum á meðan hann venst sínu nýja umhverfi.
  • Hafðu allt sem kettlingurinn þarfnast á því svæði sem honum er úthlutað, matar- og vatnsskálar, kattakassa, klórustaur og leikföng.
  • Veittu kettlingnum svigrúm til þess að skoða heimilið upp á eigin spýtur en fylgstu með úr fjarlægð til að ganga úr skugga um að hann fari sér ekki að voða.

Að húsvenja

Sem betur fer eru kettir hreinleg dýr, fljót að læra og munu í flestum tilfellum nota kattakassa án þess að þurfa til þess sérstaka hvatningu. Kettlingar vilja ekki kasta af sér nálægt fleti sínu eða mat og þess vegna er best að hafa kassann á öðrum stað og eitthvað afsíðis. Kynntu kettlinginn snemma fyrir kassanum og leyfðu honum að skoða hann sjálfur. Til hvatningar og kennslu er hægt að setja kettlinginn í kassann á morgnana og eftir máltíðir fyrst um sinn.

kitten in the litter box, isolated on the white

Það skiptir miklu máli að kattakassanum sé alltaf haldið hreinum þar sem sumir kettlingar munu ekki fást til að nota óhreinan kassa. Það gæti leitt til þess að þeir kasti af sér annars staðar innanhúss. Það ætti alltaf að nota hreint vatn og sápu sem ekki er lyktsterk, best er ef hreinsiefnið er sérstaklega hannað með ketti í huga.

Kettir eiga það til að vera sérvitrir og gætu tekið upp á því að vilja ekki notast við einhverjar ákveðnar tegundir af kattasandi. Ef ljóst er að kettlingurinn vill ekki nota kattakassann þá er skynsamlegt að byrja á því að skipta sandinum út fyrir aðra tegund og athuga hvort það virkar. Aðrar algengar ástæður geta verið kvíði eða ótti við rýmið þar sem kassinn er staðsettur, því skal gæta þess að kassinn sé staðsettur á rólegum og öruggum stað afsíðis.

Að lokum er gott að muna að ef þú ert með fleiri en einn kött þá þarftu fleiri kassa. Þetta er minna vandamál ef kettirnir fara út til að hægja sér.

Mataræði og næring
Ein af mikilvægari ákvörðununum sem þarf að taka varðar mataræði kettlingsins. Það getur stundum virst sem það séu of margir valkostir í boði en ef eftirfarandi atriðum er fylgt þá á að vera hægt að tryggja kettlingnum það mataræði sem hentar honum best:

  • Það er yfirleitt góð regla að halda áfram að gefa kettlingnum það fæði sem hann fékk hjá ræktanda. Ef það fæði er í mótsögn við það sem við mælum með þá er best að breyta mataræðinu smám saman á sjö dögum með því að taka inn nýjar fæðutegundir og skipta hinum út einni af annari.
  • Næringarþörf kettlinga er mjög ólík næringarþörf eldri katta, þess vegna er mikilvægt að mata þá á fæði sem hefur verið sérstaklega þróað fyrir kettlinga. 
  • Það er best að hafa góða yfirsýn og skipulag á mataræði kettlingsins, þannig er tryggt að hann fái alla þá næringu sem hann þarf til vaxtar á þessu snemmskeiði.
  • Gefið kettlingnum fjórar litlar máltíðir á dag í byrjun. Eftir því sem hann stækkar þá skal draga úr tíðni og stækka skammta.
  • Alltaf skal fylgja leiðbeiningum framleiðanda varðandi matargjöf, það kemur í veg fyrir að kettlingurinn verði annað hvort vannærður eða of þungur.
  • Gangið úr skugga um að kettlingurinn hafi ávallt greiðan aðgang að ótakmörkuðum vatnsbirgðum. Vatnsskál eða drykkjarbrunnur eru góðir kostir.
  • Einnig má gefa kettlingnum mjólk sem er sérstaklega framleidd fyrir kettlinga. Ef mjólkin veldur niðurgangi þá skal taka hana strax út af matseðlinum.
  • Ef spurningar vakna varðandi eitthvað af þessu þá skaltu ekki hika við að leita til starfsfólks okkar, við munum aðstoða þig með glöðu geði og benda þér á réttu leiðirnar til að velja besta mögulega matarræði fyrir kettlinginn þinn. Ýtarlegri upplýsingar má finna undir efni er varðar næringu katta á heimasíðunni okkar.

Bólusetningar, flær, ormahreinsanir og örmerkingar
Því miður er því svo farið, jafnvel á Íslandi, að til eru sjúkdómar sem geta verið banvænir köttum. Áhrifaríkastu tækin sem í boði eru til varnar smitsjúkdómum eru bólusetningar. Bólusetningar hjálpa til við að styrkja ónæmiskerfi kettlinga þannig að ef þeir komast í kynni við einn af þessum smitsjúkdómum eiga þeir auðveldara með að verjast honum.

Við mælum með því að kettlingar séu bólusettir tvisvar, til að byrja með. Fyrst þegar þeir eru 8-9 vikna gamlir og svo aftur við 12 vikna aldur. Það er nauðsynlegt að gera þetta tvisvar vegna þess að í sumum tilvikum þá gerir ónæmið sem kettlingar öðlast í kviði móður sinnar og með móðurmjólkinni fyrstu sprautuna óvirka. 

Snýkjudýr í þörmum, eða ormar, eru algeng í öllum kettlingum. Þeir geta jafnvel smitast af ormum í móðurkviði eða með móðurmjólkinni. Af þessum sökum er mjög brýnt að ormahreinsa kettlinga reglulega þessar fyrstu vikur í lífi hans. Við mælum með því að kettlingar séu ormahreinsaðir þegar þeir eru tveggja, fimm og átta vikna gamlir og á mánaðarfresti eftir það, allt þar til þeir ná sex mánaða aldri.

Flær eru að sama skapi algengt vandamál hjá gæludýrum á öllum aldri, hér á landi. Slæm tilfelli geta valdið miklum heilsuvandamálum hjá ungum kettlingum og við mælum því með því að fyrirbyggjandi meðul gegn flóm séu notuð reglulega. Það er alltaf mikilvægt að nota vörur sem eru hannaðar fyrir ung dýr.

Að lokum mælum við einnig með því að kettlingurinn sé örmerktur til að auðvelda auðkenningu. Í sumum sveitarfélögum á Íslandi er lagaleg krafa um slíkt til staðar.

Leikir

Það er mjög skemmtilegt að leika við lítinn kettling. Fyrir utan það að æfingin er kettlingnum góð og styrkir líkama hans eftir því sem hann stækkar er leikurinn einnig góð aðferð til tengslamyndunar milli þín og kattarins.

Kettir eru í eðli sínu veiðidýr og þeim finnst gaman að nota leikföng eins og „bráð“. Þetta felur í sér að kettlingar eiga það til að nota tennur sínar og klær óspart í leik og það getur vitaskuld valdið sársauka ef þeir stökkva á hendur þínar eða fætur.  Það mikið af leikföngum í boði fyrir kettlinga sem hægt er að nota sem bráð. Boltar, leikföng sem fest eru í band, leikfangaveiðistangir fyrir ketti og jafnvel leikfangahanskar eru dæmi um leikföng sem hægt er að kaupa fyrir ketti. Best er að nota alltaf leikföng sem eru hönnuð með öryggi kettlinga í huga. Leikið ekki við kettlingin með ullarhnykli þar sem kettlingar eiga það til að gleypa ullina sem þá getur fests í þörmum þeirra og valdið lífshættulegri stíflu.

Kettlingum og köttum almennt finnst gaman að fela sig og því getur einfalt leikfang eins og tómur pappakassi verið nóg til að veita náttúrulegri hegðun kettlingsins útrás.

Kettlingar eiga það til að ganga í gegnum stutt tímabil þar sem þeir sýna mikla ofvirkni og hlaupa þá um húsið á miklum hraða. Þetta er eðlileg hegðun og úti í náttúrunni myndi þetta athæfi æfa kettlingin í því að elta bráð. Lykilatriði í þessu er að hvetja ekki til þessarar hegðunar svo kettlingurinn taki hana ekki með sér inn í fullorðinsár og besta leiðin til þess að koma í veg fyrir það er að hunsa hann. Það má alls ekki falla í þá gryfju að elta kettlinginn þegar hann lætur svona, honum mun bara líka athyglin vel og er þá líklegri til að halda uppteknum hætti þegar hann eldist. 

Klór

Maine Coon kitten, 7 weeks old, using a scratch post

Allir kettir hafa þörf fyrir að klóra hluti til að halda klóm sínum heilbrigðum, það er eðlileg hegðun. Til þess að koma í veg fyrir að kettlingurinn venji sig á að klóra húsgögnin á heimilinu þá er nauðsynlegt að kynna hann snemma fyrir klórustaur.

Almenn heilsa

Það er margt sem hægt er að gera fyrir kettlinginn strax á unga aldri sem eykur á möguleika þess að hann haldi góðri heilsu. Hér að ofan hefur verið komið inn á mataræði, bólusetningar, ormahreinsun og meðferð gegn flóm en að auki mælum við með eftirfarandi: 

  • Skoðið tennur kettlingsins reglulega og tannburstið hann, daglega ef mögulegt er, með tannbursta og tannkremi fyrir kettlinga.
  • Skoðið eyru kettlingsins reglulega svo hægt sé að grípa inn í ef einhver vandamál skapast. Eyrnamaurar eru t.a.m. algengir í kettlingum og valda yfirleitt söfnun eyrnamergs í hlustinni.
  • Burstið kettlinginn reglulega með mjúkum bursta sem hentar kettlingum. Þannig mun feldur hans og húð haldast í góðu ásigkomulagi. Þetta er sérstaklega mikilvægt ef hárin á feldi kattarins eru löng.
  • Skoðið fætur kettlingsins og gangið úr skugga um að ekkert sé að gangþófum eða klóm. Klær kettlinga eru oftast hvassar en stuttar. Það auðveldar kettlingnum að halda klónum í hæfilegri lengd ef hann á klórustaur en ef þær eru of hvassar þá er hægt að stytta þær með naglaklippum sem eru sérstaklega ætlaðar kettlingum. 
  • Ef þið finnið eitthvað við skoðun sem veldur ykkur áhyggjum þá er velkomið að leita ráð hjá starfsfólki dýralæknastofunnar okkar eða panta tíma hjá dýralækni nálægt þér.
  • Reglulegar skoðanir frá unga aldri venja kettlinginn við að vera handfjatlaður og meðhöndlaður.  Það auðveldar honum (og ykkur!) lífið að mun, skapist þörf fyrir meðhöndlun seinna á ævinni.ku kettlingur þinn reglulega með mjúkum bursta hentar fyrir kettlinga. Þetta mun hjálpa að halda frakki kettlingur þíns og húð í góðu ásigkomulagi . Sérstaklega mikilvægt fyrir löng hár ketti .
Dagsetning
21. september 2023
Deila